lafi.is - Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Fundargerðir stjórnar LAFÍ
Fundargerðir fagráða
VSB
VERKIS
MANNVIT
LAGNATÆKNI
ÍSMAR

Lagnafélag Íslands
The Icelandic Heating, Ventilating and Sanitary Association  |   Ystabæ 11 - 110 Reykjavík  |  Sími 892 4428  póstfang: lafi@simnet.is
ForsíðaFélagiðÚtgáfanRáðstefnur og sýningarLög og reglugerðirLofsvert lagnaverkTenglarEnglish
Fréttir
10.07.2012 - Hvað ber framtíðin í skauti sér?


Ávarp, Sæbjörns Kristjánsson byggingartæknifræðingur

Flutt á 25 ára Afmælishátíð Lagnafélags Íslands 7. okt. 2011

Forseti Íslands, staðgengill ráðherra, félagsmenn Lagnafélags Íslands og góðir gestir. 

Það hefur reynst mörgum erfitt að spá í framtíðina. Það er talað um að sjá fram á veginn, en er einhver sjáanlegur vegur framundan?  Ef maður á að gera sér eitthvað í hugarlund um framtíðina þá er líklega bara betra að líta í baksýnisspegilinn og giska á hver vegferð okkar fram að þessu gæti leitt okkur, en muna þó að svo gæti komið kröpp beygja - eða hver veit hvað.
 
Það kreppir að okkur lagnamönnum þessa stundina, eins og öðrum – nema hjá þeim í bönkunum, reyndar.  Við lagnamenn munum sjálfsagt komast í gegnum þetta – en heldur er það leiðinlegt og tekur í á meðan  ástand varir. Þetta er orðin ansi löng leið niður á við – nú fer að koma að því að leiðin liggi upp á við að nýju.   Á sviði hagstjórnar og stjórnmála erum við lagnamenn bara dæmigerð fórnardýr, eins og flestir- það er ekki okkar viðfangsefni að stýra efnahagsmálum en þetta hefur afdrifarík áhrif á allt okkar vinnuumhverfi.

Okkar vinnuframlag er á öðrum sviðum og skiptir samfélagið okkar miklu máli þó með öðrum hætti sé. Það er oft viðfangsefni okkar að gefa viðskiptavinum ráðgjöf og það þarf oft að taka ákvarðanir sem geta skipt verulegu máli, bæði í smáu og stóru. Hvort verið er að leiðbeina húseiganda eða heilum bæjarfélögum, svo dæmi sé tekið. 
Ég vil nefna það sem dæmi að nú er mönnum ljóst að jarðvarmi er í fæstum, eða jafnvel engu tilfelli sú sjálfbæra orkulind sem talið var.  Allavega er sú hætta til staðar að það sé gengið of nærri einstökum vinnslusvæðum.    Við erum þeir sá hópur fagmanna sem leggjum á ráðin um alla gerð þeirra kerfa og búnaðar sem nýta þessa orkulind.  Það verður okkar hlutskipti að stýra þróun á stöðugt betri nýtingu á þessum stórkostlega orkugjafa. Ég vil tala hátt um hitaveiturnar okkar – þær eru stórkostlegar. Hvernig tekist hefur til við að byggja upp hitaveitur um allt land er frábært afrek margra aðila.

Vitund okkar allra um umhverfismál er stöðugt að þróast og kröfur um umhverfisvernd munu bara aukast. Það er fullkomlega eðlileg þróun í ljósi fólksfjölgunar og reynslunnar sem við höfum fengið.  Það liggur fyrir að það er mikið starf framundan í bættum lausnum í fráveitumálum, og fleira mætti telja. Kalda vatnið okkar, þar liggur enn nánast óplægður akur, þó allir landsmenn njóti þegar góðs af því.  Það er fyrirsjáanleg stóraukin vinnsla vatns í framtíðinni og þar munum við lagnamenn koma að allri gerð kerfa og búnaðar, frá vatnstöku til pökkunar. 
Kröfur til tæknikerfa í byggingum munu aukast – sú þróun verður drifin af kröfum notenda um aukin þægindi, en jafnframt verður krafan um hagkvæmni meiri.  Orkuverð mun hækka - sem leiðir af sér að orkusparandi aðgerðir verða arðbærari.  Þróunin í viðfangsefnum og aðferðum, okkar lagnamanna, mun halda áfram og með auknum hraða. Við þurfum, ekki bara að fylgjast með - við þurfum að standa í stafni, við eigum að taka virkan þátt í þróuninni á okkar sviðum. Metnaður í starfi leiðir til góðra verka.

Einu megum við ekki gleyma.  Aukið umfang tæknikerfa og krafa um stöðugan rekstur og hagkvæmni mun gera auknar kröfur til lagnamanna við að viðhalda öllum þessum tæknikerfum í góðum rekstri. Viðhaldsþátturinn og endurnýjun og viðbætur verður sífellt umfangsmeiri í okkar störfum. Reynslan hefur sýnt okkur að það er ekki nóg að byggja góð lagnakerfi – það þarf að leggja meiri alúð í gangsetningar og stillingar kerfa og sjá til þess að þau skili því sem til er ætlast.

Ég nefna hér enn einn þátt í starfi okkar lagnamanna. Það er rekstur kerfa og viðhald til að tryggja hagkvæman og góðan rekstur.  Mikill misbrestur hefur oft orðið á viðhaldi fasteigna og þar með talið í skipulegu viðhaldi lagnakerfa. Því þarf að breyta – það er hagkvæmt og við lagnamenn þurfum að leggja okkar að mörkum hvað það mál varðar. Þar er átak framundan – munum það.  

Í stuttu máli verður það viðfangsefni okkar lagnamanna, á komandi tíð, að sinna sambærilegum viðfangsefnum og við höfum verið að fást við.  En kröfur munu aukast.  Kröfur notenda um hagkvæmni og rekstraröryggi og ekki síður kröfur og viðmið til umhverfisþátta munu aukast.  Þess vegna þurfum við að halda vöku okkar og vera jafnan í fararbroddi í þekkingu og skipulegum vinnubrögðum. 

Að lokum vil ég bera fram þá ósk að Lagnafélagi Íslands takist að vera áfram sá samskiptagrunnur okkar lagnamanna sem það hefur verið frá byrjun.  


FerillEflaDanfossMannvirkjastofnun