lafi.is - Rétt hugsandi byggingarfulltrúar ?
Fundargerðir stjórnar LAFÍ
Fundargerðir fagráða
VSB
VERKIS
MANNVIT
LAGNATÆKNI
ÍSMAR

Lagnafélag Íslands
The Icelandic Heating, Ventilating and Sanitary Association  |   Ystabæ 11 - 110 Reykjavík  |  Sími 892 4428  póstfang: lafi@simnet.is
ForsíðaFélagiðÚtgáfanRáðstefnur og sýningarLög og reglugerðirLofsvert lagnaverkTenglarEnglish
Fréttir
28.01.2010 - Rétt hugsandi byggingarfulltrúar ?


Bakþanki við aðalfundarþanka.

Í Fréttabréfi Lagnafélagsins nr. 108, frá í september 2009 er stutt grein eftir framkvæmdastjóra Lagnafélagsins.
Er greinin rituð í framhaldi af aðalfundi L.A.F.Í. 2009.

Í greininni kemur m.a. fram að vaxandi kröfur séu gerðar af hálfu samfélagsins um meiri og öruggari aðgerðir hins opinbera við skil á lagnakerfum til hins almenna borgara.

Þá eru þar upp taldir sex opinberir aðilar sem hafa með lagnakerfi í byggingum að gera að mati greinarhöfundar.
Einn þessa aðila eru byggingarfulltrúar, en umfjöllun um hlutverk þeirra í greininni er kveikja þessara skrifa.
Vegna samhengis er hér tekið upp orðrétt því sem fram er haldið um hlutverk byggingarfulltrúa við skil lagnakerfa.

[...] Byggingarfulltrúar eru starfsmenn sveitarfélaganna, þeir eiga að sjá um að lagnakerfin séu rétt frágengin, rétt stillt, samvirknitækja hafi verið sannreynd og séu í samræmi við handbók lagnakerfa og uppáskrifað af öllum viðkomandi lagnaverktökum ásamt hönnuði að verkinu sé lokið.
Að því loknu skal lagnaverkið ásamt handbók í heild sinni tekið út af manni óháðum viðkomandi verki og með sérstaka fagþekkingu. Að þeirri úttekt lokinni, getur byggingarfulltrúi fyrst gefið út vottorð.

Hvernig standa þessir aðilar sig í eftirlitsstarfinu, sumir illa, aðrir betur, en hvar getum við séð verklagsreglur þessara eftirlitsaðila?
Í lið 6 er tekið dæmi um góðan, rétt hugsandi byggingarfulltrúa.
Því miður er raunin önnur. Byggingarfulltrúar fara einungis fram á það að viðkomandi lagnaverktakar og hönnuður skrifi upp á það að þeir hafi lokið við sinn verkþátt hver fyrir sig, án þess að byggingarfulltrúi geri nokkuð til þess að sannreyna sannleikann um það hvort verkinu sé lokið.
Nú er svo komið að ábyrgðarmeiri byggingarfulltrúar eru farnir að kalla eftir “Handbók lagnakerfa” áður en þeir skrifa úttektarvottorð, þetta verður að kallast til fyrirmyndar. [...]

Í ofangreindum texta kemur fram alvarlegur misskilningur um það hvert sé hlutverk byggingarfulltrúa við skil lagnakerfa.
Sé þessi misskilningur útbreiddur er ekki að undra þótt vanhöld séu á frágangi lagnakerfa við verkskil.
Hvergi í byggingarreglugerð kemur fram að það sé hlutverk byggingarfulltrúa að sjá um að lagnakerfi séu rétt stillt, samvirkni stýritækja hafi verið sannreynd og sé í samræmi við handbók lagnakerfa. En handbók lagnakerfa er ekki nefnd á nafn í byggingarreglugerðinni.
(Því miður).
Mikilvægt er að þeir sem um lagnir í byggingum véla, eigandi, hönnuðir, byggingarstjórar, iðnmeistarar og byggingarfulltrúar hafi hlutverk sín á hreinu og að ekki séu gefnar rangar upplýsingar til almennings, þ.e. neytenda um ábyrgðarhlutverk og hver framkvæmi hvað.
Þar má hvorki framtíðarsýn né óskhyggja brengla sjónarhorn.
Lagnakerfi bygginga eru hönnuð af löggiltum hönnuðum sem bera ábyrgð á verki sínu.
Kerfin eru lögð af löggiltum iðnmeisturum eftir faggreinum sem bera ábyrgð á sínum verkum.
Í sameiningu bera þessir aðilar ábyrgð á því að viðkomandi lagnakerfi skili því sem til var ætlast og sé hagkvæmt í rekstri.

Því til sönnunar ber byggingarstjóra að leggja fram við lokaúttekt sbr. gr. 53 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 yfirlýsingar ábyrgðaraðila sem upp eru taldir í greininni um fullbúið lagnakerfi sem uppfylli að öllu leyti hönnunarforskriftir.

Byggingarfulltrúar bera ábyrgð á að svo sé gert og jafnframt með áfangaúttektum sbr. ákv.
48. gr. byggingarreglugerðar, að lagnakerfi, efni og íhlutir þeirra séu samræmt hönnunargögnum, stöðlum og reglugerðum.

Byggingarfulltrúar eru starfsmenn sveitarfélaga en ekki verktaka eða byggjenda.
Þegar múrari leggur ílögn í afrennslisgólf ber hann ábyrgð á að gólfið halli að niðurfalli. Byggingarfulltrúi er ekki boðaður á byggingarstað til þess að úrskurða um hvort leggja megi í gólfið.
Sú ákvörðun er tekin af múrarameistara í samvinnu við pípulagningameistara, undir eftirliti byggingarstjóra.
Nákvæmlega það sama á við um stillingu lagnakerfa. Þeir sem tekið hafa að sér hönnun og lagningu kerfanna bera fulla ábyrgð á því að skila fullfrágengnu verki án vinnuframlags opinberra aðila sem kostað er að meira og minna leyti af opinberu skattfé.

Þegar keypt er ný bifreið af bifreiðarumboði fer ekki fram á henni opinber úttekt um að öll kerfi hennar virki og séu samstillt í samræmi við þá handbók sem bifreiðinni fylgir.

Hver ber ábyrgð á því að allt sé í lagi? Það gerir framleiðandinn. Sé svo ekki leitar kaupandinn til söluumboðsins með vandamál, ekki til skoðunarstofu.

Sama lögmál gildir um húsbyggingu og er það löngu tímabært að byggjendur átti sig á þeirri staðreynd og breyti eftir henni.

Byggjandi ber ábyrgð á þeirri vöru, byggingu, sem hann framleiðir og að hún uppfylli lágmarksákvæði laga- og reglugerða.
Átti þeir sig ekki á þessari staðreynd verður með öllum tiltækum ráðum að leiða þá á rétta braut.
Það verður ekki gert með því að byggingarfulltrúar gangi í verk þeirra á kostnað skattgreiðenda.
Sá tími er löngu liðinn og kemur ekki til baka.


    Janúar 2010
    Magnús Sædal Svavarsson, formaður Félags byggingarfulltrúa
    Byggingarfulltrúi í Reykjavík


FerillEflaDanfossMannvirkjastofnun